Hættulegt hernaðarbrölt stjórnarinnar

EINS og öllum Íslendingum ætti að vera kunnugt var á síðasta ári gengið frá samningum við Bandaríkjamenn um varnir landsins ef til ófriðar kæmi á þessum slóðum, sem reyndar eru engar líkur á. Bandaríkin eru langöflugasta herveldi heimsins og kemst engin þjóð nærri þeim í því efni. Í raun hafa Bandaríkjamenn haldið uppi vörnum fyrir Ísland allt frá árinu 1942 þegar þeir leystu hér brezka setuliðið af hólmi. Þetta hefir verið gert í góðri samvinnu við Íslendinga þegar frá er talinn sértrúarhópur sem hafði sérskoðanir í málinu. Allar efnahagslegar framfarir á Íslandi síðan eiga að meira eða minna leyti rætur að rekja til samstarfs okkar við Bandaríkjamenn. Við eigum þeim aðeins gott að gjalda.

Á síðasta ári tilkynnti utanríkisráðherra að hún hefði skipað nefnd þriggja ráðuneyta til að taka upp viðræður um nýja stefnu í varnarmálum landsins. Hún hefir nú skýrt þessa nýju stefnu í erindi sem hún hélt í Háskóla Íslands þann 18.1. 2007 og birt hefir verið á vef utanríkisráðuneytisins en kjarni hennar er að "taka sjálf fulla ábyrgð á að tryggja varnir landsins." Greinilegt er að henni nægir ekki velvild Bandaríkjamanna og vill hún því sniðganga nýjan samning við þá og snúa sér að Nato-ríkjunum með hervernd fyrir landið og á hún þar fyrst og fremst við Norðmenn, þótt enginn skilji samhengið. Það er með öllu óskiljanlegt að öryggi landsins skuli ekki heyra undir forsætisráðherra landsins, en samkvæmt fréttum Morgunblaðsins var hann í Bergen að flytja Norðmönnum þann fagnaðarboðskap að þeir væru velkomnir til Íslands með her sinn og þó einkum flugher. Þetta minnir á að eini framsóknarmaðurinn í borgarstjórn Reykjavíkur er í raun virkur borgarstjóri. Kannski er ástandið eins á stjórnarheimilinu. Framsókn er furðu seig þrátt fyrir stöðugt minnkandi fylgi.

Hversvegna þetta dekur við Norðmenn? Þeir settu upp hvalstöðvar víða á Íslandi og höfðu drepið nær allan hval fyrir aldamótin 1900 en tóku þá til að veiða síld við Ísland bæði til bræðslu og söltunar. Eftir að Íslendingar höfðu tekið við þessum atvinnuvegum tóku þeir árum saman að drepa alla kræðu eða smásíld innan fjarða í Noregi til bræðslu í því skyni að hindra það að síldin færi til Íslands. Árum saman hafa þeir neitað að semja við Íslendinga um eðlilega veiði Íslendinga úr norsk-íslenzka stofninum og hafa nú samið um að Íslendingar megi veiða 17% aflans en sjálfir vilja þeir veiða 75% hans. Getum við fórnað góðu samstarfi við Bandaríkjamenn vegna þessara norsku stríðsmanna? Gæti það verið að ríkisstjórn Íslands væri að ganga erinda Norðmanna? Ræða ráðherrans gæti bent til þess. Þar er ekki verið að túlka íslenzka hagsmuni. Styrkur Íslands á alþjóðavettvangi felst ekki í norskum þyrlum eða norskum her á landinu heldur í hlutleysisstefnu landsins og herleysi. Þetta eru dyggðir sem alþjóðasamfélagið virðir og eru til fyrirmyndar fyrir önnur ríki, einkanlega smáríkin. Íslendingar geta ekki stutt þessa norsksinnuðu stjórnmálamenn sem villst hafa vegna tilvísunarkerfisins inn í stjórn landsins. Þessari stefnu er einfaldlega hafnað.

Höfundur er fyrrverandi forstjóri OLÍS.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband