Málfar Laugvetninga og "Reygvíginga"

Í LOK ágústmánaðar sl. gaf Íslenzk málnefnd í samvinnu við JPV-útgáfuna út nýja orðabók undir heitinu STAFSETNINGARORÐABÓKIN. Þetta hæversklega nafn er lokaátak margra ára starfs við rannsókn á íslenzku máli og nú skyldu allir Íslendingar beygja sig undir klafann. Þetta er hin eina, sanna og rétta íslenzka sem er í "samræmi við vilja stjórnar Íslenzkrar málnefndar" (formáli bls. 9), allir skulu tala og skrifa þannig héðan í frá. Þetta er nú endanleg heimild allra nemenda í öllum skólum landsins, svo og allra blaðamanna og fjölmiðlafólks í landinu. Þótt ekki liggi nein opinber refsing við misþyrmingu á íslenzku máli má eflaust segja að ekki hafi verri glæpur verið framinn áður í landinu gegn menningarviðleitni landsmanna en þessi. JPV-útgáfan keppist nú við að dreifa þessum ófögnuði út um landið og hefir auglýst að ný prentun sé nú í sölu. Útgáfan er mikil og tjónið því stórt. Enginn hefir hreyft andmælum opinberlega enn.

Málfar Laugvetninga

Vitnisburður ritstjórans er þessi: "Í samræmi við vilja stjórnar Íslenzkrar málnefndar er reynt að leiðbeina notendum um vandaða beygingu í þessari bók og jafnframt reynt að stuðla að stöðlun beyginga sem eru á reiki. Eignarfall fleirtölu veikra kvenkynsorða hefir verið á reiki í nútímamáli. Eftir uppruna beygingarflokksins er ljóst að þar er endingin -na. Svo er ávallt í algengum orðum: stúlkna, rjúpna" (bls. 9). Í framhaldi af þessari skoðun eru síðan gefin fyrirmæli um að öll slík kvenkyns nafnorð skuli enda á -na í ef. ft. (Dæmi: Vegna útivinnu mammnanna er það nú hlutverk ammnanna að gæta barnanna.) Þetta er rangt því að fjöldi slíkra orða er eins í ef.ft. Þetta er síðan ítrekað með því að upplýsa að "Forstöðumaður Íslenzkrar málstöðvar tvílas handritið og aðrir starfsmenn í málstöðinni lögðu verkefninu lið eftir því sem tími gafst til og ritstjóri óskaði eftir" (bls.11). Eg hefi fulla samúð með ritstjóranum. Hún var aðeins að fylgja fyrirmælum forstöðumannsins og vilja stjórnarinnar og það greinilega gegn betri vitund.

Í kaflanum um orð sem byrja á L eru 15 opnur í orðabókinni og þar fann eg 154 villur með -na endingunni sem ekki áttu þar heima eða rúmlega 10 villur á hverri opnu. Í bókinni eru alls 325 opnur og þannig 3250 villur alls ef hlutfallið helst. Þetta er fáránlegt og vítavert, því að hér á að vera um heimildarrit að ræða. Þetta kemur sér verst fyrir skólanemendur og fjölmiðlafólk sem ekki á sér undankomuleið undan ofbeldinu. Fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni var svo óheppinn að vitna til orðtaksins "Sannleikurinn er sagna beztur" og halda að þarna væri sagna ef.ft. af saga en það er rangt. Sagna er þarna ef. ft. af sögn í merkingunni munnmæli. Íslendingasögur voru skrifaðar eftir munnmælasögum eða -sögnum eins og allir Íslendingar vita. Við höfum mörg dæmi um ef. ft. orðsins saga svo sem fjöldi draugasaga, ástarsaga, mannkynssaga o.s.frv. Allt stutt sögulegum heimildum. Þetta reyndust andlátsorð Íslenzkrar málnefndar. Hún var leyst frá störfum af Stofnun Árna Magnússonar með lögum nr. 40/2006. Það er dapurlegt að sjá málinu þannig vísvitandi misþyrmt af þeim sem eiga að vita betur og að enginn skuli rísa gegn skemmdarverkinu.

Málfar "Reygvíginga"

Þetta einkennist bæði af latmæli og hljóðvillu. Þótt ritmálið sé í flestum tilfellum ásættanlega rétt er framburðinum mjög áfátt bæði í útvarpi og sjónvarpi. Latmælið lýsir sér einkum í samhljóðunum sem ekki eru bornir rétt fram, svo sem k/g: Reygjavíg, Agranes, Agureyri, Agurey o.s.frv. eða t/d: Nado-samningar, Dóda-búðin, adhygli, adriði, eldspída o.s.frv. Algengustu dæmin um hljóðvillurnar í sérhljóðunum eru ö/u: Sumu sugurnar, stuð tvu, huvuðborgin, huvuðstuðvar, o.s.frv. Ástandið versnar stuðugt. Málfarsráðunaut útvarpsins finnst betra að tala um etymologíu eða samanburðarmálfræði.

Höfundur er fyrrverandi forstjóri OLÍS.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband