Tilvísunarkerfið

ÞEIR sem enn muna millistríðsárin geta minnst þess að skopblaðið Spegillinn birt þá mynd af strák að elta kött með skýringunni: "Mamma barði pabba og pabbi barði mig en bíddu bara þangað til eg næ í köttinn." Það er ekkert nýtt að skopast sé að framkvæmd lýðræðisins á Íslandi. Nýlegt dæmi er að Davíð tilnefndi Halldór sem síðan tilnefndi Geir Haarde sem síðan tilnefndi Valgerði og Jón Sigurðsson sem síðan hefir mótmælalaust og í framhjáhlaupi tekið sæti á Alþingi. Hann á þó eftir að sanna sig í kosningunum í vor. Menn eru misgóðir á hlaupunum.

Nú hefir það skeð að forseti Íslands hefir tekið sæti í Þróunarstofnun Indlands án tilnefningar. Utanríkisráðherra þykir fram hjá sér gengið því hún hafi átt að tilnefna til starfans. Forsetinn er því tafarlaust kvaddur til skýringa og skýrslutöku í utanríkisráðuneytinu sem eflaust fer fram fljótlega og almenningi verður þá væntanlega gerð grein fyrir.

Nú stendur ekkert í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands (lög 17. júní nr 33/1944) um að forsetinn skuli ekki taka sæti í Þróunarstofnun Indlands og er þetta sýnilega galli á stjórnarskránni. Formaður enn nýrrar endurskoðunarnefndar stjórnarskrárinnar, Jón Kristjánsson, hefir lýst því yfir að hann hafi gefist upp á limminu, því enn einu sinni hafi mistekist að koma jöfnum rétti allra Íslendinga til fiskveiða inn í þessa vandræðalegu stjórnarskrá þrátt fyrir miklar tilraunir í þessa átt. Hann er því hættur formennskunni og þingsetu á Alþingi. Þannig fór um sjóferð þá, reyndar eins og um margar fyrri tilraunir í þessa átt. Þarna hafa menn rekist á harðan vegg, því að forsetinn er eini þjóðkjörni embættismaður þjóðarinnar en enginn hefir treyst sér til að ganga gegn atkvæðum.

Helsta áhugamál stjórnarinnar hefir verið að afnema þetta vandræðalega ákvæði 2. greinar stjórnarinnar um að Alþingi og forseti Íslands skuli fara saman með löggjafarvaldið. Þetta er einskonar sjálfhelda eða öryggisventill gegn ofstjórn á landinu. Sumir hafa þó talið að bæta mætti úr þessu með því að taka upp það ákvæði að í forföllum forseta skuli "forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar" fara sameiginlega með forsetavaldið undir stjórn forseta Alþingis. (L.56/1991). Þetta gæti sætt suma við málið því að oftast hafa þessir embættismenn verið flokksbundnir sjálfstæðismenn. Fjarvera forsetans á Indlandi væri þeim þannig mjög kærkomin úrlausn. Við sjáum hvað setur.

Höfundur er fyrrverandi forstjóri OLÍS.


Málfar Laugvetninga og "Reygvíginga"

Í LOK ágústmánaðar sl. gaf Íslenzk málnefnd í samvinnu við JPV-útgáfuna út nýja orðabók undir heitinu STAFSETNINGARORÐABÓKIN. Þetta hæversklega nafn er lokaátak margra ára starfs við rannsókn á íslenzku máli og nú skyldu allir Íslendingar beygja sig undir klafann. Þetta er hin eina, sanna og rétta íslenzka sem er í "samræmi við vilja stjórnar Íslenzkrar málnefndar" (formáli bls. 9), allir skulu tala og skrifa þannig héðan í frá. Þetta er nú endanleg heimild allra nemenda í öllum skólum landsins, svo og allra blaðamanna og fjölmiðlafólks í landinu. Þótt ekki liggi nein opinber refsing við misþyrmingu á íslenzku máli má eflaust segja að ekki hafi verri glæpur verið framinn áður í landinu gegn menningarviðleitni landsmanna en þessi. JPV-útgáfan keppist nú við að dreifa þessum ófögnuði út um landið og hefir auglýst að ný prentun sé nú í sölu. Útgáfan er mikil og tjónið því stórt. Enginn hefir hreyft andmælum opinberlega enn.

Málfar Laugvetninga

Vitnisburður ritstjórans er þessi: "Í samræmi við vilja stjórnar Íslenzkrar málnefndar er reynt að leiðbeina notendum um vandaða beygingu í þessari bók og jafnframt reynt að stuðla að stöðlun beyginga sem eru á reiki. Eignarfall fleirtölu veikra kvenkynsorða hefir verið á reiki í nútímamáli. Eftir uppruna beygingarflokksins er ljóst að þar er endingin -na. Svo er ávallt í algengum orðum: stúlkna, rjúpna" (bls. 9). Í framhaldi af þessari skoðun eru síðan gefin fyrirmæli um að öll slík kvenkyns nafnorð skuli enda á -na í ef. ft. (Dæmi: Vegna útivinnu mammnanna er það nú hlutverk ammnanna að gæta barnanna.) Þetta er rangt því að fjöldi slíkra orða er eins í ef.ft. Þetta er síðan ítrekað með því að upplýsa að "Forstöðumaður Íslenzkrar málstöðvar tvílas handritið og aðrir starfsmenn í málstöðinni lögðu verkefninu lið eftir því sem tími gafst til og ritstjóri óskaði eftir" (bls.11). Eg hefi fulla samúð með ritstjóranum. Hún var aðeins að fylgja fyrirmælum forstöðumannsins og vilja stjórnarinnar og það greinilega gegn betri vitund.

Í kaflanum um orð sem byrja á L eru 15 opnur í orðabókinni og þar fann eg 154 villur með -na endingunni sem ekki áttu þar heima eða rúmlega 10 villur á hverri opnu. Í bókinni eru alls 325 opnur og þannig 3250 villur alls ef hlutfallið helst. Þetta er fáránlegt og vítavert, því að hér á að vera um heimildarrit að ræða. Þetta kemur sér verst fyrir skólanemendur og fjölmiðlafólk sem ekki á sér undankomuleið undan ofbeldinu. Fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni var svo óheppinn að vitna til orðtaksins "Sannleikurinn er sagna beztur" og halda að þarna væri sagna ef.ft. af saga en það er rangt. Sagna er þarna ef. ft. af sögn í merkingunni munnmæli. Íslendingasögur voru skrifaðar eftir munnmælasögum eða -sögnum eins og allir Íslendingar vita. Við höfum mörg dæmi um ef. ft. orðsins saga svo sem fjöldi draugasaga, ástarsaga, mannkynssaga o.s.frv. Allt stutt sögulegum heimildum. Þetta reyndust andlátsorð Íslenzkrar málnefndar. Hún var leyst frá störfum af Stofnun Árna Magnússonar með lögum nr. 40/2006. Það er dapurlegt að sjá málinu þannig vísvitandi misþyrmt af þeim sem eiga að vita betur og að enginn skuli rísa gegn skemmdarverkinu.

Málfar "Reygvíginga"

Þetta einkennist bæði af latmæli og hljóðvillu. Þótt ritmálið sé í flestum tilfellum ásættanlega rétt er framburðinum mjög áfátt bæði í útvarpi og sjónvarpi. Latmælið lýsir sér einkum í samhljóðunum sem ekki eru bornir rétt fram, svo sem k/g: Reygjavíg, Agranes, Agureyri, Agurey o.s.frv. eða t/d: Nado-samningar, Dóda-búðin, adhygli, adriði, eldspída o.s.frv. Algengustu dæmin um hljóðvillurnar í sérhljóðunum eru ö/u: Sumu sugurnar, stuð tvu, huvuðborgin, huvuðstuðvar, o.s.frv. Ástandið versnar stuðugt. Málfarsráðunaut útvarpsins finnst betra að tala um etymologíu eða samanburðarmálfræði.

Höfundur er fyrrverandi forstjóri OLÍS.


Hættulegt hernaðarbrölt stjórnarinnar

EINS og öllum Íslendingum ætti að vera kunnugt var á síðasta ári gengið frá samningum við Bandaríkjamenn um varnir landsins ef til ófriðar kæmi á þessum slóðum, sem reyndar eru engar líkur á. Bandaríkin eru langöflugasta herveldi heimsins og kemst engin þjóð nærri þeim í því efni. Í raun hafa Bandaríkjamenn haldið uppi vörnum fyrir Ísland allt frá árinu 1942 þegar þeir leystu hér brezka setuliðið af hólmi. Þetta hefir verið gert í góðri samvinnu við Íslendinga þegar frá er talinn sértrúarhópur sem hafði sérskoðanir í málinu. Allar efnahagslegar framfarir á Íslandi síðan eiga að meira eða minna leyti rætur að rekja til samstarfs okkar við Bandaríkjamenn. Við eigum þeim aðeins gott að gjalda.

Á síðasta ári tilkynnti utanríkisráðherra að hún hefði skipað nefnd þriggja ráðuneyta til að taka upp viðræður um nýja stefnu í varnarmálum landsins. Hún hefir nú skýrt þessa nýju stefnu í erindi sem hún hélt í Háskóla Íslands þann 18.1. 2007 og birt hefir verið á vef utanríkisráðuneytisins en kjarni hennar er að "taka sjálf fulla ábyrgð á að tryggja varnir landsins." Greinilegt er að henni nægir ekki velvild Bandaríkjamanna og vill hún því sniðganga nýjan samning við þá og snúa sér að Nato-ríkjunum með hervernd fyrir landið og á hún þar fyrst og fremst við Norðmenn, þótt enginn skilji samhengið. Það er með öllu óskiljanlegt að öryggi landsins skuli ekki heyra undir forsætisráðherra landsins, en samkvæmt fréttum Morgunblaðsins var hann í Bergen að flytja Norðmönnum þann fagnaðarboðskap að þeir væru velkomnir til Íslands með her sinn og þó einkum flugher. Þetta minnir á að eini framsóknarmaðurinn í borgarstjórn Reykjavíkur er í raun virkur borgarstjóri. Kannski er ástandið eins á stjórnarheimilinu. Framsókn er furðu seig þrátt fyrir stöðugt minnkandi fylgi.

Hversvegna þetta dekur við Norðmenn? Þeir settu upp hvalstöðvar víða á Íslandi og höfðu drepið nær allan hval fyrir aldamótin 1900 en tóku þá til að veiða síld við Ísland bæði til bræðslu og söltunar. Eftir að Íslendingar höfðu tekið við þessum atvinnuvegum tóku þeir árum saman að drepa alla kræðu eða smásíld innan fjarða í Noregi til bræðslu í því skyni að hindra það að síldin færi til Íslands. Árum saman hafa þeir neitað að semja við Íslendinga um eðlilega veiði Íslendinga úr norsk-íslenzka stofninum og hafa nú samið um að Íslendingar megi veiða 17% aflans en sjálfir vilja þeir veiða 75% hans. Getum við fórnað góðu samstarfi við Bandaríkjamenn vegna þessara norsku stríðsmanna? Gæti það verið að ríkisstjórn Íslands væri að ganga erinda Norðmanna? Ræða ráðherrans gæti bent til þess. Þar er ekki verið að túlka íslenzka hagsmuni. Styrkur Íslands á alþjóðavettvangi felst ekki í norskum þyrlum eða norskum her á landinu heldur í hlutleysisstefnu landsins og herleysi. Þetta eru dyggðir sem alþjóðasamfélagið virðir og eru til fyrirmyndar fyrir önnur ríki, einkanlega smáríkin. Íslendingar geta ekki stutt þessa norsksinnuðu stjórnmálamenn sem villst hafa vegna tilvísunarkerfisins inn í stjórn landsins. Þessari stefnu er einfaldlega hafnað.

Höfundur er fyrrverandi forstjóri OLÍS.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband