Tilvísunarkerfið

ÞEIR sem enn muna millistríðsárin geta minnst þess að skopblaðið Spegillinn birt þá mynd af strák að elta kött með skýringunni: "Mamma barði pabba og pabbi barði mig en bíddu bara þangað til eg næ í köttinn." Það er ekkert nýtt að skopast sé að framkvæmd lýðræðisins á Íslandi. Nýlegt dæmi er að Davíð tilnefndi Halldór sem síðan tilnefndi Geir Haarde sem síðan tilnefndi Valgerði og Jón Sigurðsson sem síðan hefir mótmælalaust og í framhjáhlaupi tekið sæti á Alþingi. Hann á þó eftir að sanna sig í kosningunum í vor. Menn eru misgóðir á hlaupunum.

Nú hefir það skeð að forseti Íslands hefir tekið sæti í Þróunarstofnun Indlands án tilnefningar. Utanríkisráðherra þykir fram hjá sér gengið því hún hafi átt að tilnefna til starfans. Forsetinn er því tafarlaust kvaddur til skýringa og skýrslutöku í utanríkisráðuneytinu sem eflaust fer fram fljótlega og almenningi verður þá væntanlega gerð grein fyrir.

Nú stendur ekkert í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands (lög 17. júní nr 33/1944) um að forsetinn skuli ekki taka sæti í Þróunarstofnun Indlands og er þetta sýnilega galli á stjórnarskránni. Formaður enn nýrrar endurskoðunarnefndar stjórnarskrárinnar, Jón Kristjánsson, hefir lýst því yfir að hann hafi gefist upp á limminu, því enn einu sinni hafi mistekist að koma jöfnum rétti allra Íslendinga til fiskveiða inn í þessa vandræðalegu stjórnarskrá þrátt fyrir miklar tilraunir í þessa átt. Hann er því hættur formennskunni og þingsetu á Alþingi. Þannig fór um sjóferð þá, reyndar eins og um margar fyrri tilraunir í þessa átt. Þarna hafa menn rekist á harðan vegg, því að forsetinn er eini þjóðkjörni embættismaður þjóðarinnar en enginn hefir treyst sér til að ganga gegn atkvæðum.

Helsta áhugamál stjórnarinnar hefir verið að afnema þetta vandræðalega ákvæði 2. greinar stjórnarinnar um að Alþingi og forseti Íslands skuli fara saman með löggjafarvaldið. Þetta er einskonar sjálfhelda eða öryggisventill gegn ofstjórn á landinu. Sumir hafa þó talið að bæta mætti úr þessu með því að taka upp það ákvæði að í forföllum forseta skuli "forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar" fara sameiginlega með forsetavaldið undir stjórn forseta Alþingis. (L.56/1991). Þetta gæti sætt suma við málið því að oftast hafa þessir embættismenn verið flokksbundnir sjálfstæðismenn. Fjarvera forsetans á Indlandi væri þeim þannig mjög kærkomin úrlausn. Við sjáum hvað setur.

Höfundur er fyrrverandi forstjóri OLÍS.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband